Thursday, May 31, 2007

Litla krakkaskrípið!

Snemma byrjar það! Litli ormurinn, þetta er sko geymt en ekki gleymt!

Fór í svona mónitor á miðvikudagsmorguninn. Sem er ekki frásögu færandi nema hvað... Maður fær svona dót með takka á og á að ýta á takkann í hvert skiptið sem krakkinn hreyfir sig. Svo er sett eitthvað apparat á belginn á manni sem nemur hjartsláttinn hjá krakkanum.
Þegar ég kom inn spurði læknirinn hvort krakkinn hreyfði sig ekki eitthvað og ég sagði honum að dýrið hefði ekki stoppað í allann morgunn. Hann var bara nokkuð ánægður með það, skellti apparatinu á og... ekki múkk. Biðum og biðum í svona hálftíma og... ekkert. Konan við hliðina á mér hafði ekki undan að ýta á takkann, það var bara tennisleikur í belgnum á henni.
Ég þurfti að velta mér til og frá og læknirinn sagði að ég þyrfti að tala við krakkann, reyna að vekja hann. Prófið þið að tala við belginn á ykkur, á öðru tungumáli og fullt af fólki að hlusta! Sem betur fer skildi liðið ekki hvað ég var að segja... ,,litla krakkaskrípi, ef þú drattast ekki til að hreyfa á þér rassgatið þá..."
En ekkert gékk. Þá kom hjúkkan með járnlúður, lítinn svona 15 cm langann og járnskefti. Svo var breiði parturinn af lúðrinum settur á belginn og barið í hinn endann með skeptinu. Konan við hliðina á mér var búin og næsta kom inn. Þið hefðuð átt að sjá svipinn á henni þegar hún sá mig berjandi á lúðurinn. Það var eins og ég væri með einhvern gjörning þarna.
En loksins fór litla gerpið að gera vart við sig og þá var hægt að byrja að mæla. Ég er viss um að púkinn hafi bara legið og beðið og hlakkað í honum!


Í kvöld stefnir allt í að það verði bekkjarpartý hjá mér. Bekkjarsystir mín á afmæli og það fara að verða síðustu forvöð á partý fyrir próf.
Eitt sem er snilld í spænskum partýum. Það er alltaf matur, sá sem heldur partýið er með alls kyns snittur, samlokur, pizzur, snakk o.fl.. Hann sér einnig um bjór og vín handa liðinu. Það er ekki svo mikið mál þar sem rauðvínsflaskan er á 1 til 2 evrur og líter á bjór á evru. Það er ekki mikið drukkið hérna af sterku víni, ekki í svona partýum. Heima er eina leiðin að vera með heimavinnslu ef maður lætur sér detta það í hug að ætla að halda partý og splæsa víni á línuna.

Við Gummi fundum það líka út í gær að það er tilvalið að vera gamalmenni hérna. Komum við á kaffihúsi í hádeginu í gær að fá okkur eitthvað snarl. Það er alltaf haugur af gamalmennum á kaffihúsunum hérna, ég held að það séu allaf sömu karlarnir sem hittast og kellingarnar við annað borð. Karlarnir eru oft í fínum fötum, jakkafötum, bindi og alltaf með hatt. Hóparnir eru á aldrinum 75 - 90 ára myndi ég giska. Farnir að heyra illa, eiga erfitt um gang og hreyfa sig mjög rólega. Samt skakklappast þeir alltaf á barinn, sömu karlarnir dag eftir dag og fá sér einn, tvo eða þrjá öllara og tapas (smáréttir sem fylgja með bjórnum). Svo þegar hurðin opnast og enn eitt gamalmennið birtist þá hrópa þeir allir í kór, ægilega gaman að sjá hann, höfðu ekkert séð hann lengi (áttu kannski ekkert von á að sjá hann aftur) svo ræða þeir heimsmálin, nautaötin og fjölskyldumálin.
Maður sér alveg vonbrigða svipinn á þeim þegar maður gengur inn á barinn. Þeir sjá hurðina opnast, vantar kannski einn eða tvo af félögunum, svo kemur bara einhver bláókunnugur kvennmaður inn. Svo smá saman kemur glott...horfa á belginn! I've know what you've been doing!!!
Svo panta þeir annan öl, athyglin beinist að þjónustustúlkunni og svo halda þeir áfram að ræða málin, umræðuefnin virðast aldrei þrjóta.
Þetta er svona Staupasteinsfílingur. Það má vel vera að hann sé fyrir hendi heima, ég hef bara einhvern veginn aldrei upplifað hann þar.

3 Comments:

Blogger Kristjana said...

SNILLD! Ég hefði viljað vera fluga á vegg og sjá þig hóta belgnum á þér öllu illu.

3:13 PM  
Blogger Hallfríður Ósk said...

ja hverjum hefði dottið í hug að þetta barn yrði stríðnispúki, svo langt frá því að það eigi nokkuð kyn til þess....

kveðja frá Köben

6:50 AM  
Anonymous Anonymous said...

Ég þykist þess nokkuð viss að elliheimilisvistin hjá okkar kynslóð kemur til að mótast af einkennum þeirrar kynslóðar. S.s. nóg af bjór.

1:54 PM  

Post a Comment

<< Home