Wednesday, February 28, 2007

Jæja, komst lifandi frá Barcelona og orðin nokkuð mett af menningu í bili. Úr varð að Sagrada family, Casa Batlló, Park Guell, Gaudi safnið, Súkkulaði safnið, Sædýrasafnið (sá hákarl ;)) Barcelonetta, Rambla og gosbrunnarnir voru skoðaðir. Restin verður að bíða betri tíma.

Gistum tvær nætur á sitt hvoru hótelinu. Fyrra hótelið var alveg í miðbænum, við Rambla götuna og 5 mínútna gangur frá höfninni. Það var á ásættanlegu verði, borguðum 18 evrur hvort okkar fyrir nóttina og morgunmatur innifalinn. Einnig voru innifaldir í verðinu 6 herbergisfélagar sem samanstóðu af tveimur japönum, tveimur Mexikönum, bandaríkjamanni og einum sem ég held að hafi örugglega verið frá Nýja Sjálandi.
Mexikóarnir voru mjög hressir, gaman að heyra Mið-Ameríska spænsku aftur og mun auðveldara að skilja hana ! Annar japaninn var náttúrulega ofur kurteis og alltaf að bjóða okkur af nestinu sínu. Hann hafði t.d. keypt kg af jarðaberjum á markaðnum og fann sig knúinn til að bjóða öllum í herberginu jarðaber fyrst hann var að borða þau fyrir framan okkur. Ný-Sjálendingurinn hraut ekkert smá og var með skápinn sinn fullann af mat til að borða á nóttunni og bandaríkjagaurinn hlustaði á ipod-inn sinn. Skemmtileg blanda af mismunandi þjóðernum.

Gummi toppaði samt kammóheitin seinni morguninn þegar hann hlammaði sér í rúmið... fyrir neðan kojuna sína þar sem mexikóska stelpan var; hann gleymdi sér aðeins. Sem betur fer settist hann bara í rúmið en henti sér ekki flötum þar. Greyið stelpan hentist upp og það var ekki að sjá hvort þeirra hrökk meira við.



Hitt hótelið var einnig gistiheimili en þar vorum við sér í herbergi og það var aðeins dýrara. Þar var allt hippaliðið samankomið, alls kyns túrbanar, dreddarar, afró og litríkur klæðnaður. Flestir höfðu það sameiginlegt að ferðast með bakpoka sem samanstóð af aleigunni.
Sameiginlegt eldhús þar sem maður gat eldað sér mat, bjór seldur á kostnaðarverði og fólkið sem vann þarna fékk fæði og húsnæði að launum. Meðalaldur þarna inni var í kringum 25 ára. Verulega kammó andrúmsloft en stofan þar sem flestir héngu í var eins og gamalt verkstæði sem hafði verið málað í alls kyns litum og myndir og plaggöt hengd upp á veggina til skrauts. Þarna lá liðið í hrúgum þegar það var ekki í skoðunarferðum og ,,minglaði" við hina.

Þessi ferðamáti er lífstíll útaf fyrir sig og pottþétt einn sá ódýrasti. Stundum er gaman að prófa einhver fín hótel og flottheit en ég held samt að það sé tæplega kominn tími á það í mínu lífi (hvað þá efni fyrir því...). Frekar vil ég fara í 10 svona ferðir fyrir tvær dýrar og flottar. Það er líka viss ævintýraljómi yfir svona ferðalögum. Frekar en að taka leigubíl keyptum við 10 miða lesarkort í neðanjarðarlestina. Á einhvern óskiljanlegan hátt enduðum við yfirleitt þar sem við ætluðum og sjaldnast var langt að rölta frá lestarstöðinni þangað sem við vorum að fara. Það getur svo sem líka verið ágætt að villast öðru hvoru, þegar ekki mikið liggur við.
Ein ferð með strætó í Reykavík dekkar innanborgar lestarmiða fyrir tvo fram og til baka og rúmlega það. Ég held það sé ástæða fyrir því að við sitjum uppi með japanska og þýska miðaldra ferðamenn!

2 Comments:

Blogger Ilmur said...

skemmtileg lýsing á sambýlismönnunum í ferðinni, sérstaklega þarna með japanann .. já og náttúrulega Gumma og stelpuna á "neðri hæðinni".

8:26 PM  
Anonymous Anonymous said...

Rétt að kíkja við, eins og svo oft áður, en alrei látið vita.

5:31 PM  

Post a Comment

<< Home