Úffff... Arrrgggg... Jólin eru að koma, einu sinni enn. Hvernig stendur á því að þau virðast alltaf koma aftan að manni? Maður hugsar til þeirra í október svo nóvember, en ákveð ég alltaf að bíða með að gera allt. Það er ekki hægt að standa í jólastússi í nóvember. Svo byrjar desember... Próf! Próf! Próf! og skyndilega komin jól og ég enn með allt á hælunum? Ár eftir ár, þetta virðist ekkert vera á leiðinni að breytast. Manni er ekki viðbjargandi.
Einhvern daginn eignast ég heimili og þegar ég stend í prófalestri og heyri af þeim sem hafa tíma til að undirbúa jólin almennilega þá set ég saman to-do-lista í huganum. Svona ætla ég að hafa það á jólunum mínum...
- Jólakortin verða helst heimagerð og skrifuð tímanlega þannig að ég geti látið hugann reika og skrifað skemmtileg jólakort, ekki alltaf bara "Gleðileg jól, o.s.frv. Hafðu það fínt! - Kveðja Katrín"
- Jólaföndur, t.d. aðventukrans verður settur upp og svo langar mig að hafa svona piparkökuhúsa-hefð. Eitt kvöld, eða einn laugardagur verður tekinn í að baka svona piparkökuhús, kalla og dót í kring. Árið á undan verður ávalt toppað!
- Að sjálfsögðu verður bakað laufabrauð, gróft laufabrauð (sem verður skorið með laufabrauðsjárninu sem Sirrý systir gaf mér í útskriftargjöf) og platan með Ellý Vilhjálms spiluð þar til hún slitnar í gegn.
- Smákökusortir verða bakaðar á hverju kvöldi og síðan tekið gott kvöld í jólakonfektið. Krakkaskrípin fá að baka með og læra að gera allar kökusortirnar svo þau geta tekið við bakstrinum þegar ég hætti að nenna því.
- Mig langar að læra að gera svona brjóstsykur, það var svona brjóstsykursnámskeið þegar ég var í heimilisiðnaðarskólanum í fyrra. Það held ég að sé algjör snilld.
- Jólagjafirnar verða keyptar tímanlega svo maður fái ekki skitu yfir því rétt fyrir jól.
- Jólaþrifin verða gerð smá saman við góða jólatónlist og án alls hreingerningarofsóknaræðis. Það þarf ekki að mála allt þrem dögum fyrir jól.
- Það verða settar jólaseríur (hvítar) í tréin sem ég ætla að hafa í stóra fallega garðinum mínum.
- Rjúpurnar verða reyttar á aðfangadagsmorgunn, jólatréið skreytt á Þorláksmessukvöld, messan á jóladag o.s.frv.
Endilega látið mig vita ef það er eitthvað sem ég er að gleyma.
En ég held áfram að láta mig dreyma og reyni þess á milli að læra hönnun landakorta og stærðfræðilegar-landmælinga-aðferðir, með hnút í maganum af því að ég á enn eftir að redda smá í jólagjöfunum, á síðasta sjens með að senda þær fyrir jól, á eftir að skrifa öll jólakortin, tengdó bakaði jólakökurnar og sendi þær til Danmerkur þar sem við fáum afdrep yfir hátíðirnar og svilkona mín ætlar að redda jólasteikinni.
Ég enda örugglega í jólakettinum því ég hef ekki svo mikið sem keypt mér sokka fyrir jólin.
Það eina sem minnir á jól hérna inni er jólastjarnan sem ég splæsti á heimilið og skítakuldi úti (sem inni).
Í stofuborðinu, sem er hringlótt og um 1,2 metrar í þvermál, er hitari. Það er s.s. rafmagnsofn niðri við gólf sem er fastur við lappirnar á borðinu. Ég rétt skríð undan sænginni og að borðinu. Þetta heldur manni sko við námsefnið því maður vill hvergi annars staðar í húsinu vera ;)
Svo gera þeir grín að mér, ,,Hvernig er það með íslendinginn? Er honum kalt?!?" Ég er búin að benda þeim á að við hitum upp húsin okkar, meira að segja allt árið! Það er ekki venjan að hafa 10 gráðu hita inni!
2 Comments:
Uuuuuuu, orðið krakkaskrípi og það í fleirtölu, þú ætlar þó ekki að fara að fjölga þér????
kv Árni Davíð
Spurning um hvort maður eigi að eiga krakka sjálfur eða ættleiða þá.
Veit ekki hvort það sé gæfulegt að við Guðmundur séum eitthvað að rugla saman okkar DNA. Pabbi hélt því fram á sínum tíma að við þann samruna myndi Gumma ætt hækka til hnésins og okkar ætt verða hárprúðari; miðað við hversu miklir jólasveinar við erum þá tel ég líklegra að hann yrði lítill, hjólbeinóttur og sköllóttur.
Ég verð samt að finna einhvern til að sjá um mig í ellinni. Hef enn tíma ;)
Post a Comment
<< Home