Sunday, September 18, 2005

Ég sem hélt alltaf að ég myndi búa í sveit, enda sveitadurgur með meiru.

Sá mig fyrir mér eina 4 reiðhesta, eina belju til heimilisins, 6 kindur (einnig til heimilisins) örfáar hænur og endur sem verpa í garðinum, að ógleymdum svínunum sem ég hef sérstakt dálæti á. And most important... hund. Maður á ekki að eiga hund nema búa í sveit. (Reyndar finnst mér líka að maður ætti ekki að eiga krakka nema að búa í sveit.) Spurning um að endurskoða það, enda langar mig ekkert smá mikið í hund.
Þarna átti að vera friður og ró, sýn til fjalla og möguleikar á gönguferðum án þess að vera ónáðaður. Svo ætlaði ég að kyssa froskinn og ...

Svo vaknaði ég... Buhu !!!
Flutt í borgina, downtown city. Nú ætla ég að gerast Vesturbæingur, halda með KR o.s.frv.. Ég veit ekki hvort maður gerist Vesturbæingur, en ég gæti átt eftir að ala þá upp. Maður þarf víst einhvern tímann að taka ábyrgð á einhverju og ég er alveg búin að sjá það að ég yrði ekki svo slæmur uppalandi. Svo ef mig langar til útlanda þá má alltaf notast við þjónustu hundahótela.
En þetta er alls ekki svo slæmt og ég held að það eigi bara eftir að fara ágætlega um okkur þarna. Þetta er alveg við Ægisíðuna svo það er hægt að labba með sjónum. Þetta er alveg við Háskólann. Ég þarf ekki að labba nema yfir eina götu og tvær blokklengdir þá er ég komin í skólann. (En ég á nú e.t.v. einhvern tímann eftir að útskrifast) Ég er um 10 mínútur að labba niður í miðbæ og flest annað er einnig í göngufæri. Vesturbærinn er bara eins og lítið, gamalt þorp innan bæjarmarka Reykjavíkur.
Engu að síður, þegar öllu er á botninn hvolft. Þá skiptir þetta ótrúlega litlu máli. Mér er nokkurn veginn sama hvar ég kem niður svo fremur sem ég á einhvers staðar heima og karlinn minn er hjá mér. Ég er bara fegin að þetta er komið á hreint. Nú höfum við einhvern miðjupunkt til að miða útfrá þó við hendumst heimshornanna á milli. Það er líka tími til kominn, eftir sjö ára samveru og tveggja ára hjónaband að athuga hvort við getum búið okkur til heimili, láta reyna á það.

Vinir og vandamenn mega endilega koma í heimsókn og þeir sem koma lengra að geta jafnvel fengið að liggja í fleti yfir nótt því aukaherbergi eru fyrir hendi. Vandinn er að hitta á heimilisfólkið heima. Þess vegna er betra að boða komu sína með einhverjum fyrirvara...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home