Wednesday, May 04, 2005

Ljós í myrkri...

Stundum gerist bara eitthvað og maður lendir alveg á botninum, hefur allt á hornum sér og lífið nær ekki fram fyrir tærnar á manni. Kvölin liggur á manni eins og mara, verkurinn í maganum fer ekki; eymdin er hroðaleg og meira að segja matarlistin yfirgefur mann.
Var að byrja að læra fyrir prófið á föstudaginn þar sem ég hef engar glósur. Mappan með öllum glósunum, heimadæmunum og nótum frá kennaranum er týnd og tröllum gefin. Fyrir náð og miskunn Víkings, skólafélaga míns, fékk ég afrit af glósunum hans. En huges stafli af ljósrituðum blöðum í reiðuleysi er ekkert sérlega aðlaðandi. Mig langaði mest til að henda mér í gólfið, grenja og hárreita mig.

Svo kom Lára og drakk með mér bjór, kistan var negld aðeins betur og talað um heimsmálin og ástina. Ég fór að sjá fram fyrir stórutánna (þeir sem þekkja mig vita nú að það er dágóður spölur) og meira að segja í lit.
Svo talaði ég við Kristveigu, sem er ári á undan mér í skólanum og sérlega vel gefin og indæl manneskja. Glósurnar hennar frá því í fyrra biðu eftir mér uppi í hillu í vinnunni hjá henni, sem hún og sótti og lánaði mér.

Stundum spái ég í það. Áttar maður sig nokkuð alltaf á því hvað maður þarf stundum að gera lítið, eitthvað sem maður er svo sem ekkert að telja eftir sér eða spá mikið í, til að lýsa upp tilveru einhvers annars. Oftar en ekki held ég að maður viti ekki af því.

En ég, sem sagt, sagði skilið við botninn, fór að sjá í lit og er bara að hugsa um að fara að sofa og hafa möppuna góðu undir koddanum. Á morgun er nýr og betri dagur með Veg og flugbrautagerð í fararbroddi...

Svona er lífið duttlungum háð ;)

0 Comments:

Post a Comment

<< Home