Thursday, November 18, 2004

Nú er ég búin að prófa að passa krakka, einhverja aðra en Emilíu sem þekkir inn á alla mínu frenju hætti og gribbutakta.

Undir lokin vorum við orðnir ágætir vinir aldrei að vita nema ég hitti þau aftur við tækifæri.

Ég fékk að upplifa kennaraverkfall, svona í takt foreldra. Vakti krakkana, eldaði graut, kom honum ofan í þau, tók til nesti fyrir þrennar máltíðir, sundföt fyrir æfingu eftir skóla, leikfimisföt fyrir skólaleikfimina, skóladótið sjálft. Kom krakkanum í útifötin, sem samkjaftar ekki. Og labba með henni í skólann á 2 m/s hraða ræðandi heimsmálin frá 6 ára sjónarhorni. Svo loksins komum við í skólann og HVAÐ! Okkur var snúið við í dyrunum og sagt að fara heim aftur, enginn skóli í dag. Fyrir utan það að foreldrar voru þarna bölvandi og eldri krakkarnir sigri hrósandi þá voru gífurleg vonbrigði í 6 ára andlitinu við hliðina á mér. Hún hafði meira að segja ætlað að sýna mér skólastofuna og við fengum ekki að fara inn í skólann. Við löbbuðum aftur heim en bráðlega tók hún gleði sína á ný. VIÐ gætum þá eytt deginum saman... ÖLLUM DEGINUM!!! Eftir það var það bara eitt niðurlútt 23 ára andlit sem labbaði heim við hliðina á 6 ára NONE STOP frásagnar-gleði-andliti.

Svo sagði hún... kannski getur þú verið platsystir mín, af því að ég á enga systur. Svo kom: ,,En það verður bara að vera í dag, því pabbi vill ekki fá þig sem systur mína"... hmmmm...

Eitt sem er alveg snilld, krakkar eru nú frekar auðtrúa og ég taldi henni bara trú um að ég væri norn. Svo sem ekki erfitt með mitt nef og hárið allt út í loftið. En það sem renndi stoðum undir þetta var þegar við fórum að gefa froskunum, ég benti henni bara á að þetta hefðu einu sinni verið krakkar sem hefðu ekki gert eins og ég sagði þeim og ég hefði breytt þeim í froska! Svo til að draga aðeins úr þessu þá sagði ég henni að ég breytti vinum mínum aldrei í froska, síðan þá höfum við verið vinir ;) Það er svo einfalt að eiga við þessi kríli, smá kænska er allt sem þarf!

Þetta virkaði ekki á hitt ,,krílið" eða 12 ára karlkyns-brjálæðing. En ég er stærri og sterkari þannig að ÉG GET hent honum, með hausinn á undan inn í snjóskafl, kitlað hann þangað til þindin í honum rifnar eða kvalið hann á einn eða annan hátt þar sem ekki sjást áverkar... Með því að sýna og sanna þetta var þetta ekki mikið mál.

Og unglingurinn á heimilinu býr yfir ofurtölvukunnáttu sem ég þarf endilega að tileinka mér. Leit mín að veikum punktum hjá honum bar skjótan árangur... PIZZA!!! Nú þarf ég bara tíma til að geta heimsótt hann, mútað honum með pizzu og kóki og legið yfir þessu; ég er samt ekki viss um að hann vilji hafa elliæra frænku sína yfir sér, hvað þá að kenna henni á sína ástkæru tölvuleiki.

Ég nefninlega komst að því að í þeirra augum er ég gömul, jafnvel fullorðin. Þessi staðreynd rakst eins og hnífur í gegnum hjarta mitt og snérist þar með hornhraða um 24/sek. Ég er ekki nema 7 árum eldri en hann... svona -3 í þroska. En sökum góðmennsku sinnar svaraði hann heimskulegum spurningum mínum um dverginn sem hljóp endalaust í einhverjum leik. Ég þarf að reyna að finna mér tíma til að leggjast yfir þetta og læra allt um Dume 3 o.s.frv.

Komin með nýtt mission! Ef ég héldi mission-skrá þá væru færslur í hana á a.m.t. 4 klst fresti 24-7.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home