Tuesday, July 27, 2004

SVO...
Þegar ég kom aftur ofan úr Eyjabökkum þá fór ég í veiðiferð með Sverri, stórfrænda mínum á Bringu, skæruliðunum hans, Emilíu og Gumma. Þeir eru alveg eins og Dalton-arnir og pabbi þeirra er alveg fjórði Daltoninn. Jóna er algjör snillingur að halda utan um þetta lið. Þeir eru svo snarklikkaðir þessir litlu að þeir hlaupa upp lóðrétta veggina og hanga í loftinu. Við Gummi sáum það alveg að við höfum ekkert í það að að fjölga okkur, eggjastokkarnir hreinlega skriðu inn í bein, skelltu á eftir sér og spældu eggin.
Veiðiferðin gékk mjög vel. Emilía fékk fyrsta fiskinn en um leið og það var kippt í stöngina þá henti hún henni frá sér. Sem betur fer kom frændi hennar henni til bjargar og dró fiskinn að landi. Við gerðum lítið annað en hjálpa yngri kynslóðinni að setja á orma, kasta útí, losa þegar var fast og bretta uppá blautar buxur. Það er bara svo gaman þegar maður er sex ára að fá að fara með í svona. Ég ætla samt að fara aftur og fá að veiða eitthvað sjálf.

Á laugardeginum fékk ég það ágæta verkefni að labba í hús á Eskifirði og spyrja fólk útí hitaveitur og heimæðar. Ég sem er haldin fólksfælni á háu stigi og kem einkar illa fyrir sem og ferleg í að koma fyrir mig orði hafði náttúrulega gott af þessari ferð, en ég er búin að sjá inn í nógu marga bílskúra fyrir lífstíð.

Á heimleiðinni komum við við í Fáskrúðsfjarðargöngunum þar sem Dagur er að vinna. Það var snilldin ein. Dagur fór með okkur inn í göngin og alveg inn í enda. Við fengum að fara upp í borinn þar sem þeir sátu við tölvuskjáina og voru að stýra borunum. Þar var nú einn frændi minn að vinna svo ég gat spurt hann um svo til allt sem mig langaði að vita; það var nú ekki svo lítið.
Ég fékk að skoða dínamítið og hvelletturnar og dótið í kringum það. Þetta er geggjað og ekkert smá gaman að fara með einhverjum sem þekkir þetta allt og gat sýnt okkur hvar setlögin voru og hvernig þetta virkaði, af hverju það var svo erfitt að bora í gegnum það o.s.frv.
Ég fékk að vera ofurgella í skærgrænu vesti með hjálm og ljós á hausnum, aldrei verið jafn kynæsandi, hvorki fyrr né síðar. Mig langar eiginlega að fara að vinna þarna smá tíma og kynnast þessu aðeins betur. Þetta er alveg magnað. Og ég sem er með svo gígantíska innilokunnarkennd fann ekkert fyrir því. Ég held að forvitnin hafi ekki hleypt henni að.

Á sunnudeginum vakti Gummi mig snemma og dreif mig með sér í vinnuna. Haldiði að það sé munur að eiga svona karl sem sér manni fyrir nógum verkefnum þegar maður er sjálfur ekki að vinna. Við fórum niður á Mjóafjörð með efni í eitthvað hús sem hann er að fara að byggja þar. Þeir ætluðu að fara að slá upp fyrir sökkli en því miður þá var bara ekki tilbúið fyrir það. Ég átti nefninlega að fá að vera með í því. Maður er víst ekki maður með mönnum ef maður kann það ekki, að Gumma áliti minnst kosti. Hann minnst kosti bauð fram aðstoð mína við það að mér forspurðri og kom svo ægilega ánægður og tilkynnti mér að ég MÆTTI koma með og slá upp sökklinum niðri á Mjóafirði, hann spurði forstjórann og það var víst allt í lagi.
Sjálfboðavinna heilann dag í skiptum fyrir að læra að slá upp sökkli. Það eru nú ekki léleg skipti!!!

En annars gengur lífið bara sinn vanagang. Við Gréta systir fórum út að borða í gær og höfðum það bara nice.

 

0 Comments:

Post a Comment

<< Home