Tuesday, June 15, 2004

Jæja, nú er það búið!!! Nú er ég farin að hanna garðinn minn, þ.e.a.s. ég gaufast það sem mér dettur í hug að gera og Gummi gerir það sem hann langar til að gera.
Við erum farin að fá illt auga hjá nágrönnunum, þeir eru alltaf að bæta og laga garðana sína og við rétt höfðum það af að þökuleggja í fyrra og það er að mestu kalið til helvítis núna.
Komst að einu sniðugu, ef ég geri eitthvað þarna sem þarf að nota tæki við, helst stórt og mikið eins og vörubíl og krana þá er Gummi boðinn og búinn til að gaufast í því. Við erum að gera kantinn með grönnum okkar í suðri og það er einmitt svona vélakall þar. Það var því gefið mál að fara með vörubíl og krana og tína svona hálfgert stuðlaberg úti í malargryfju. Það ætlum við svo að nota eins og girðingastaura og runna á milli. Þvílíkt sem þeir nenntu að gaufast í því að hífa, laga og færa steinana.
Svo er ég að hugsa um að hlaða vörðu og finna eitthvað dót í fjörunni heima og draga hingað. Gummi ætlar að búa eitthvað til úr bjálkum og risahellum þannig að þetta verður einhver fígúrugarður í lokin.
Emilía sér um að vökva, jafnvel í gær í ausandi rigningu hljóp hún til og færði úðarann, þó svo að hún væri gegndrepa af því að fara út í rigninguna.

Gaf Gumma hjól í afmælisgjöf, Moongoose, eitthvað svoleiðis. Gréta, Ragga og Emilía gáfu honum hjálm og hann kemst ekkert á hjólinu nema með hjálm; Emilía stendur vörð um það.

Þurfti að fara út að mæla á laugardaginn, vakti Gumma kl. hálf sjö á laugardagsmorgunn og dró hann með mér að mæla. Þurfti bara að mæla upp eina klöpp sem tók stuttan tíma. Rómantíska lautarferð á laugardagsmorgni með TRIMBLE - GPS tækjum; hver var svo að reyna að ýja að því að ég væri ekki rómantísk.

Þessa dagana hef ég verið að teikna lagnir í götu. Er búin að gaufast svolítið í þessu svo ég fékk að gera þetta nokkurn veginn sjálf, spurði bara hina ef ég var ekki alveg klár á þessu. Teiknaði þær, staðsetti og reiknaði halla, lengdir,hnit o.s.frv. Var voðalega ánægð þegar þetta var nokkurn veginn komið en rak þá allt í einu augun í það að skv. mínum útreikningum rann skólpið upp í mót :(. Hvað eru svona einföld atriði að þvælast fyrir manni !!!

Ástþór og hans framboð fer svo í pirrurnar á mér, þvílíki skrípaleikurinn. Má ekki bara leggja hann inn, læsa hann inni, eitthvað. Ég verð bara reið og pirruð þegar ég heyri eitthvað um hann í útvarpinu, og svo var heill þáttur með honum í dag. Ég var eiginlega farin að rífast við útvarpið ég var svo pirruð.

Er að drepast úr hungri, aldrei þessu vant. Farin heim að borða.

Úti er skrifstofuóveður, annað orð yfir sól og blíðu sem nú er á Egilsstöðum.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home