Tuesday, April 27, 2004

Hvers á ég að gjalda?

Guðmundur er farinn að æfa sig af kappi á gítarinn, meira en nokkru sinni áður, og það svona í upphafi prófatíðar! Svo langar hann bara að læra svona kúl frasa og lagabrot úr Nirvana, Metallica og blúsgangar eru farnir að bergmála í hausnum á mér. En málið er nefninlega að það er ekkert gaman að spila, nema einhver sé að hlusta... Svo er ég komin ofan í eitthvað stærðfræðidæmið, búin að skilgreina sjálfan mig í einangraðu rúmi á tunglinu þegar það er bankað, Gummi, laumar inn nefinu og ,, ég var að spá, ég ætla ekkert að trufla þig en hvernig geri ég a-moll?" eða ,,geturu stillt gítarinn?" eða bara að leyfa mér að heyra nýjustu framfarirnar. Getið þið ímyndað ykkur hvað ég er lengi að koma heim frá tunglinu og hvað þá að fara þangað aftur? Og það fer nú ekkert smá eldsneyti í það...

Pabbi rak inn nefið áðan, heilsaði og spurði frétta en var sofnaður í stofusófanum áður en ég náði að svara. Mikið óskaplega öfundaði ég hann af því hvað hann gat látið fara vel um sig í sófanum og sofið vært í hátt á annan tíma. Ég er farin að nota allan sólarhringinn í að læra, ómeðvitað, og pottþétt óviljandi!
Vaknaði í nótt, var svöng og fór að fá mér að borða. Ég veit það að ég var að hugsa um hringheildi þegar ég vaknaði og var að spá í það á meðan ég borðaði, kíkti á bókina þar sem hún lá opin á skrifborðinu áður en ég fór aftur að sofa til að tékka hvort þetta væri nú ekki rétt pæling hjá mér. Fór að spá í það þegar ég vaknaði í morgun hvort þetta hefði bara verið draumur. Sá mjólkurglasið á borðinu þegar ég kom fram, þannig að þetta var í alvöru. Geðheilsa mín stendur á völtum fótum þessa dagana, eða öllu heldur valtari fótum en áður...

0 Comments:

Post a Comment

<< Home