Tuesday, March 23, 2004

Lífið leikur við mig og ég er farin að eygja vonarglætu í myrkrinu. Tveir kennarar sáu nú aðeins að sér og sú stund mun ef til vill koma að ég mun líta glaðan dag, ég finn það á mér. Vonleysið er að víkja, það fer örugglega ekki langt, en ég ætla að reyna að halda því í skefjun fyrst um sinn.

En það er þetta með helv... skólagjöldin. Þau hafa áhrif á fleira en fjárhaginn, rökræðurnar á heimilinu hafa vaxið upp úr öllu valdi. Hvernig í ósköpunum enduðum við Gummi saman? Við höfum greinilega ekki rætt næga pólitík í tilhugalífinu, það hefði ekki orðið neitt meira úr því. Honum finnst fátt fáránlegra en að einhverjir aðrir úti í bæ eigi að borga fyrir mína menntun. Auðvitað hljómar þessi setning mjög illa, en af hverju þarf ég að líða fyrir það að öðrum dettur sú vitleysa í hug að eignast börn og þurfa á barnabótum að halda. Eða ekki er það mér að kenna ef einhver út í bæ veikist eða slasast og verður örkumla. Af hverju var hann ekki búinn að kaupa sér sjúkratryggingu? Af hverju þarf ég að líða fyrir það, það er ekkert að mér. En þess fyrir utan eru atvinnuleysisbætur bara aumingjabætur, það er nóga vinnu að hafa og örorkubætur aðallega misnotaðar. Það fer ævinlega að rjúka úr hausnum á mér eftir smá stund og ég viðurkenni það alveg að ég verð eiginlega svolítið fúl yfir því að það sé raunverulega til fólk sem hugsar svona. Ég bý með einum!
Þegar sá dagur kemur að ég drattast út á vinnumarkaðinn og fer að borga skatta sem íslenskur ríkisborgari þá vona ég að ég hugsi enn þá svona, verði ekki ofurseld græðiginni. En það er náttúrulega hundfúlt að borga skatta og sjá mennta- og heilbrigðiskerfið fara í hundana.

Og helvítis svínin... Þeir ætla að láta okkur borga staðfestingargjaldið í skólann áður en þeir taka endanlega ákvörðun um það hvort þeir ætli að innleiða skólagjöld eða ekki. Frestuðu því um 6 vikur, eina atriðinu sem átti að taka fyrir á fundinum. Ef ég ákveð að innritast sem nýnemi og innritast í júlí, þá þarf ég að fá Júlíus Sólnes, skorarformann, til að meta alla áfangana sem ég er búin að fara í til að fá að halda áfram þar sem ég er komin. Við ættum öll að ryðjast inn á skrifstofuna hjá honum og láta hann meta allt liðið, allt annað árið í byggingunni. Það kæmi út sem smá mótmæli, varla myndu þeir vilja að við færum öll út á þriðja ári frekar en að borga skólagjöld. Ég held að þeir séu nú eitthvað að fríka út þarna uppfrá. Eins þarf ég að ákveða alla áfanga sem ég ætla að taka á næsta ári og fæ ekki að breyta þeim. Fyrir þá sem eru að taka brautarval þá er ekki búið að ákveða hvaða áfangar verða kenndir á næsta ári... Hvað er eiginlega á seyði?

0 Comments:

Post a Comment

<< Home