Monday, January 19, 2004

Nú er ég komin heim aftur í raunveruleikann. Búin að skila heimadæmum í stærðfræðigreiningu og tölulegri greiningu og get aðeins náð andanum.

Ótrúlegustu hlutir eru enn að gerast. Ég náði stærðfræðigreiningu III !!! Þannig að núna er bara spennufall og læti.

Helgin var ósköp notaleg. Við völdum nú veðrið til að skoða okkur um á suðurlandinu; það var varla að maður sæi veginn fyrir framan bílinn. Ég horfði meira að segja á Idol í fyrsta skipti, ekki seinna vænna. Maturinn var líka alveg snilld. Við dunduðum okkur bara í snoker og Gummi gat sýnt yfirburði sína á því sviði en sem betur fer var líka borðtennisborð þarna þar sem ég gat hamsað hann og fengið uppreisn æru minnar. En annars var ótrúlega gott að geta legið í baði og drukkið sitt rauðvín og borðað sitt súkkulaði.
Fórum í heimsókn á Selfoss til Gullu föðursystur Gumma á laugardeginum í blindbyl og fárviðri. Skoðuðum myndir frá því að hún var í Afríku, og nú langar mig svo að fara. Skipulagði minnst 30 Afríku-ferðir í huganum það sem eftir var dagsins.
Eftir að við fórum af hótelinu á sunnudeginum fórum við til Imbu og Valla (Imba er frænka Gumma) og skoðuðum nýja húsið þeirra, hundinn Skottu og borðuðum allt nammið þeirra.

Þegar við komum heim fór ég til Hóu til að gera tölulegu greiningardæmin. Gummi komst í tölvuna á meðan... Þegar ég kom heim var hann svo rosalega ánægður; ljómaði eins og sól í heiði. Hann fann uppboð á netinu og var í óðaönn að taka þátt. Hann þurfti bara að skrifa vísakortanúmerið sitt einhversstaðar og þá var þetta o.k. Rosalega var ég fegin að vera með mitt í vasanum, en eftir að ég undirritaði hjúskaparsáttmálann þá er það ekki lengur ,,his, it's ours" í hvora áttina sem er, þannig að mig varðar málið. Fór eitthvað að fikra mig í átt að tölvunni og sá mér til mikillar skelfingar að honum hafði tekist að bjóða í ...hraðamæli á honda-shadow mótorhjól... og var með efsta tilboðið. Svo líður einhver viss tími og ef hann er enn efstur þegar tíminn rennur út þá hefur hann keypt hlutinn. Það voru einhverjir fimm tímar eftir þannig að þegar hann vaknaði í morgun, þá spratt hann á fætur, kveikti á tölvunni til að reyna að sjá árangur viðskipanna. Gæfan reyndist okkur hliðholl -það hafði einhver boðið betur-.
Núna tek ég tölvuna með mér hvert sem ég fer og er að sækja um fyrirfram greitt vísakort. Ef ég hefði efni á lögfræðing þá myndi ég láta búa til eftir-á-kaupmála. Verð að láta mér nægja að spyrja á vísindavef hi.is til að athuga réttarstöðu mína í þessu máli ;)

0 Comments:

Post a Comment

<< Home